Ráðgjöf

Sérverkefni

Reynsla okkar

Í tæpa tvo áratugi hafa ráðgjafar Þulu safnað yfirgripsmikilli þekkingu við útfærslu á rúmlega 20 sérhæfðum heilbrigðislausnum. Þessi verkefni hafa verið unnin í samstarfi við kröfuharða viðskiptavini frá nokkrum löndum svo sem Hollandi, Englandi, Þýskalandi, Austurríki, Íslandi, Danmörku og Noregi.

Við höfum útfært lykillausnir sem gegna mikilvægu hlutverki í starfsemi heilsugæslustöðva, apóteka, sjúkrahúsa og öldrunarheimila.

Hafið samband, ef áhugi er fyrir því að leita umsagna hjá viðskiptavinum okkar.

Dæmi um verkefni

Rafræn lyfjafyrirmæli í Noregi

Þula hefur síðan 2011 unnið samkvæmt samningi við heilbrigðisráðuneytið í Noregi að þróun framsækinna lausna sem tryggja landsdekkandi útbreiðslu á rafrænum lyfjafyrirmælum.

Lausnin, sem hefur hlotið nafnið E-resept FM, er hönnuð til að nýtast sem fyrirmælaeining í sjúkraskrárkerfum á norskum markaði og hefur tryggt hraða útbreiðslu rafrænna fyrirmæla um allan Noreg.

E-resept FM hefur verið sett upp á ríflega eitt þúsund læknastofum í Noregi og er að auki nýtt af sjúkrahúsum víðsvegar í Noregi.

Sérfæðingar Þulu hafa gegnt lykilhlutverki í að þróa næstu kynslóð lausnarinnar sem miðar að opnari högun og forritaskilum fyrir viðhald lyfjakorta. Lausnin er hönnuð til að keyra í tölvuskýi og notendaviðmót er alfarið byggt á nútímalegri veftækni.

Klínískur lyfjaþekkingargrunnur fyrir íslenskan markað

Lyfjastofnanirnar á Íslandi og í Noregi hafa gert með sér samkomulag um samvinnu á sviði klínískra lyfjaþekkingargrunna fyrir íslenskan markað. Byggt verður á þrautreyndum grunni sem gengur undir nafninu FEST og Norðmenn hafa þróað síðustu árin. Grunnurinn hefur verið staðfærður fyrir íslenskar aðstæður og inniheldur klínískar upplýsingar um öll lyf á íslenskum markaði.

Með tilkomu lyfjaþekkingargrunnsins verður hægt að þróa hugbúnaðarlausnir sem styðja við klíníska ákvarðanatöku og vara t.d. við milliverkunum lyfja og ofnæmum eða benda á ofskammtanir svo eitthvað sé nefnt.

Þula hefur haft veg og vanda að þróun sérhæfðrar hugbúnaðarlausnar sem hefur hlotið nafnið Medit.  Fyrsta útgáfa grunnsins var staðfærð með aðstoð Medit og verður grunninum viðhaldið til framtíðar í sömu lausn.