eMed

Lyfjafyrirmæli

Rafræn lyfjafyrirmæli eru í senn flókið og sérhæft viðfangsefni. Við byggjum nú á margra ára reynslu af þróun slíkra lausna og höfum þróað nýja hugbúnaðarlausn sem styður heilbrigðisstarfsmenn við gerð lyfjafyrirmæla og viðhald lyfjakorta.

Lausnin sem hefur hlotið nafnið eMed, er hægt að nota sjálfstætt, en einnig er hægt að samþætta eMed við önnur sjúkraskrárkerfi.

Rafrænt lyfjakort

Opin högun

Til að gæta fyllsta öryggis við lyfjaávísanir er mikilvægt að hafa aðgang að réttu lyfjakorti einstaklinga. Með lyfjakorti er átt við staðfest yfirlit yfir þau lyf sem einstaklingur á að taka á hverjum tíma.

Umtalsverð áskorun er í því fólgin að viðhalda réttum lyfjakortum, þar sem algengt er að fleiri en einn læknir ávísi lyfjum úr ótengdum kerfum og frá óskildum stofnunum. Þetta leiðir oft til óæskilegra en jafnframt fyrirbyggjanlegra óhappa.

Þessi áskorun var frá upphafi höfð að leiðarljósi við hönnun eMed. Við hönnun lausnarinnar er notendaviðmót og bakendi lausnarinnar aðgreind með skýrum hætti. Með því að opna forritaskil á móti bakendanum geta fleiri fyrirmælakerfi en eMed lesið og uppfært lyfjakort einstaklinga.

Með þessum hætti er hægt að koma á samræmdu lyfjakorti innan stofnana sem nota fleiri en eitt lyfjaávísanakerfi, innan einstakra heilbrigðisumdæma eða jafnvel á landsvísu.

Samvinna fagaðila

Skilvirkir verkferlar

eMed lausnin er hönnuð til að styðja við verkferla sem gera heilbrigðisstarfsmönnum kleift að útbúa og viðhalda rafrænum lyfjafyrirmælum og lyfjakortum.

Læknar nota eMed til að útbúa lyfjafyrirmæli og viðhalda lyfjakortum skjólstæðinga sinna. Fyrirmælin geta verið á virkt innihaldsefni og út frá því er hægt að veita stuðning við klíníska ákvarðanatöku.

Hjúkrunarfræðingar geta einnig skráð tillögur að nýjum fyrirmælum eða breytingar á lyfjakortum. Slíkar breytingar þarf ávallt að staðfesta af lækni. eMed styður hjúkrunarfræðinga við undirbúning og yfirferð á lyfjakortum, staðfestingu og sendingu þeirra til fjölskömmtunarapóteka. Við undirbúning lyfjagjafa geta hjúkrunarfræðingar nýtt eMed til að velja bestu vörurnar til að uppfylla fyrirmæli læknis á virkt innihaldsefni, form og styrk.

Hægt er að samþætta eMed við hugbúnaðarlausnir sem notaðar eru í apótekum við klíníska rýni á fyrirmælum. eMed getur einnig tekið við skilaboðum frá apóteki með rafrænum hætti og birt þau þar sem þau eiga við. Þetta eykur skilvirkni í samskiptum apóteka við starfsfólk á deildum heilbrigðisstofnana. Þannig gæti apótek t.d. með fljótvirkum hætti komið athugasemdum til hjúkrunarfræðinga varðandi einstök lyfjakort og gert tillögur að úrbótum fyrir skömmtun.

eMed hentar sérstaklega vel þar sem stofnanir nýta þjónustu fjölskömmtunarapóteka.

Sveigjanleg nálgun

Sjálfstætt eða samþætt

eMed lausnin er hönnuð með það fyrir augum að auðvelt sé að samþætta hana með öflugum hætti við önnur sjúkraskrárkerfi, en lausnina er einnig hægt að nota sjálfstætt.

Þegar eMed er samþætt við sjúkraskrárkerfi þurfa notendur einungis að auðkenna sig á móti einu kerfi og val á sjúklingi er samstillt milli kerfanna. Kerfin geta samnýtt persónuupplýsingar og klínískar upplýsingar svo sem upplýsingar um lyfjaofnæmi.

Í gegnum forritaskil eMed geta önnur sjúkraskrárkerfi sótt fyrirhugaðar lyfjagjafir einstaklinga eða deilda fyrir tiltekin tímabil og nýtt þær upplýsingar við skráningu á lyfjatiltekt og lyfjagjöfum. Upplýsingar úr eMed má einnig nýta í læknabréf, sjúklingayfirlit eða hvar sem þær kunna að koma að gagni.

Klínískur stuðningur

Aukið öryggi sjúklinga

Stuðningur við klíníska ákvarðanatöku er mikilvægur hluti af virkni eMed.

Við gerð lyfjafyrirmæla og viðhald lyfjakorta nýtir eMed undirliggjandi klínískan lyfjaþekkingargrunn til að vara við milliverkunum lyfja, lyfjaofnæmi og tvískömmtunum svo eitthvað sé nefnt.