Verkefnin okkar

Sérfræðingar Þulu hafa á síðustu 10-15 árum öðlast verðmæta reynslu við úrlausn yfir 20 hugbúnaðarlausna fyrir heilbrigðisstofnanir víða um heim, svo sem í Hollandi, Bretlandi, Þýskalandi, Austurríki, Ítalíu, Íslandi, Danmörku og Noregi.

Stærstu verkefnin sem Þula vinnur að um þessar mundir eru í Noregi. Þar er um að ræða lyfjasérfræðilausnina Alfa og lyfjaávísanakerfið E-resept FM. Í báðum verkefnunum hafa sérfræðingar Þulu verið leiðandi í öllu ferlinu, við greiningu, hönnun, þróun, prófanir, innleiðingu og verkefnastjórnun.

Ef þess er óskað þá er mögulegt að hafa samband við valda viðskiptavini til að leita umsagna. Vinsamlegast hafið samband við okkur ef áhugi er á því.

Alfa - Lyfjasérfræðilausn

Hugbúnaðarlausn sem samþættir sjúkraskrárkerfi, sjálfvirka lyfjaskömmtunarróbóta og birgðakerfi apóteka. Lausnin styður við verkferla í lyfjaumsýslu, í sjúkrahúsapótekum og lyfjabúrum sjúkrahúsa.

Alfa lausnin er hönnuð fyrir samtök sjúkrahúsapóteka í Noregi og er í notkun á stórum sjúkrahúsum í Osló, Þrándheimi og Kalnes.

Sérfræðingar okkar hafa varið yfir 25 ársverkum í þróun og þjónustu við Alfa lausnina.

Þula vinnur að framþróun og aðlögun Alfa fyrir nýja markaði. Til þessa verks hefur félagið hlotið styrki frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og Tækniþróunarsjóði Íslands.

E-resept FM - Lyfjaávísanakerfi

Sérhæfð hugbúnaðareining sem gerir læknum kleift að ávísa lyfjum með rafrænum hætti. Lausnin er hönnuð þannig að hægt er að samþætta hana við öll sjúkraskrárkerfi sem byggja á hefðbundinni tækni.

Lausnin er í notkun á yfir 1000 læknastofum og er einnig í notkun á sjúkrahúsum í heilbrigðisumdæmum mið- og vestur Noregs.

Sérfræðingar okkar hafa varið yfir 23 ársverkum í þróun og þjónustu við E-resept FM lausnina.